Erlent

Mál samkynhneigða Íranans til Evrópuþingsins

Michael Cashman á Evrópuþinginu.
Michael Cashman á Evrópuþinginu. MYND/AFP

Michael Cashman þingmaður Evrópuþingsins í Strassborg mun taka fyrir mál samkynhneigðs írana sem á von á dauðadómi í Íran verði honum vísað úr landi í Bretlandi. Mehdi Kazemi er 19 ára og er nú í haldi í Hollandi þar sem hann berst gegn því að vera snúið aftur til Bretlands.

Kazemi sótti um hæli í Bretlandi eftir að kærasti hans var tekinn af lífi í Íran þegar yfirvöld komust að samkynhneigð hans.

Cashman sem er forseti hóps lesbía og homma hjá Evrópuþinginu telur að líf Kazemi sé í hættu snúi hann aftur til Íran. Þingmaðurinn á frumkvæði að tillögunni sem hann leggur fyrir þingið.

Í viðtali við fréttavefinn PinkNews, sem er fréttavefur samkynhneigðra í Bretlandi, sagði hann að málið myndi gera Evrópuþinginu kleift að staðfesta að það fylgdi grundvallarmannréttindum. Hann hvatti einnig yfirvöld í Bretlandi að fara eftir tillögu þingsins.

Í henni er bent á að taka verði tillit til laga ESB um hælisleitendur í aðildarlöndum bandalagsins. Ofsóknir gegn samkynhneigðum ættu samkvæmt þeim að vera næg ástæða til að veita hæli.

Þingmaðurinn er einn tveggja samkynhneigðra þingmanna á Evrópuþinginu og hafði frumkvæði að tillögunni fyrir hönd Jafnaðarmannaflokks þingsins.


Tengdar fréttir

Íranskur hommi leitar til Hollendinga um hjálp

Nítján ára samkynhneigður íranskur námsmaður á yfir höfði sér dauðadóm í heimalandi sínu vegna kynhneigðar sinnar. Hann fékk ekki pólitískt hæli vegna þessa í Bretlandi og hefur nú leitað á náðir yfirvalda í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×