Erlent

Hersveitir NATO oftar í átökum í Afganistan í ár en í fyrra

MYND/AP

Hersveitir NATO í Afganistan hafa lent oftar í átökum á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Þetta segja talsmenn hersveitanna.

Í janúar og febrúar síðastliðnum sló 595 sinnum í brýnu milli hersveitanna og uppreisnarmanna í 101 héraði landsins en í fyrra kom til átaka 550 sinnum í 88 héruðum. Segir NATO að þetta megi meðal annars skýra með því að bandalagið leggi meira upp úr því en áður að takast á við talibana.

Talsmenn NATO segja að nokkur árangur hafi náðst í þeirri baráttu en sérfræðingar segja hins vegar ákveðið þrátefli í stöðunni. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum Afganistans bendir hins vegar á að árásum uppreisnarmanna hafi fækkað í upphafi þessa árs.

Hins vegar er sigur á talibönum ekki í sjónmáli og er búist við að Bandaríkjamenn þrýsti á Evrópuþjóðir að leggja fleiri hermenn til á fundi NATO í Búkarest í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×