Erlent

Bush beitir neitunarvaldinu á vatnspyntingafrumvarpið

George Bush segir ekki koma til greina að banna CIA að beita vatnspyntingum.
George Bush segir ekki koma til greina að banna CIA að beita vatnspyntingum.

George Bush Bandaríkjaforseti hefur beitt neitunarvaldi sínu til þess að koma í veg fyrir að frumvarp sem meðal annars bannar vatnspyntingar verði að lögum. Frumvarpið hefði gert það að verkum að leyniþjónustunni CIA hefði verið óheimilt að beita harkalegum aðferðum við yfirheyrslur yfir grunuðum hryðjuverkamönnum.

Vatnspyntingar hafa verið harðlega gagnrýndar eftir að upp komst um að CIA hefði notað aðferðina en þá er vatni hellt yfir vit fangans þannig að honum finnst hann vera að drukkna.

„Frumvarpið sem þingið sendi mér hefði bannað notkun á einu öflugasta vopninu sem við höfum að ráða í stríðinu gegn hryðjuverkum," sagði Bush í vikulegu útvarpsávarpi sínu.

„Þessvegna beitti ég neitunarvaldinu í dag." Þingið, sem lýtur stjórn demókrata kom frumvarpinu í gegn en alla tíð var talið nær öruggt að Bush myndi beita neitunarvaldinu. „Þetta er slæmur tími fyrir þingið að banna aðferðir sem hingað til hafa orðið til þess að tryggja öryggi í Bandaríkjunum," sagði Bush ennfremur.

Demókratar líta málið öðrum augum og hyggjast halda baráttunni áfram. „Pyntingar eru svartur blettur á Bandaríkjunum og við munum ekki hætta fyrr en frumvarpið nær fram að ganga," sagði Diane Feinstein, þingmaður demókrata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×