Erlent

Sættir í deilu ríkja Rómönsku-Ameríku

Alvaro Uribe og Rafael Correa skiptust á föstum skotum á fundinum í Dóminíska lýðveldinu í kvöld.
Alvaro Uribe og Rafael Correa skiptust á föstum skotum á fundinum í Dóminíska lýðveldinu í kvöld. MYND/AP

Forsetar Kólumbíu, Ekvadors og Venesúela hafa náð sátt í vikulöngum landamæradeilum sínum.

Eftir því sem breska ríkisútvarpið greinir frá náðu þeir samkomulagi á ráðstefnu í Dóminíska lýðveldinu og tókust leiðtogar fyrstnefndu landanna í hendur í útsendingu sem varpað var um stóran hluta Rómönsku-Ameríku, en málið var talið geta ógnað stöðugleika þar.

Eins og fram hefur komið í fréttum slitu bæði Ekvador og Venesúela pólitískum tengsl við Kólumbíumenn eftir að kólumbískar hersveitir fóru yfir landamæri Ekvadors og myrtu þar einn helsta leiðtoga uppreisnarhópsins FARC, sem staðið hefur í blóðugri baráttu í Kólumbíu í áratugi.

Stjórnvöldum í Ekvador líkaði illa að þau hefðu ekki verið látin vita af því að hersveitirnar hefðu farið yfir landamærin og studdi Hugo Chavez, forseti Venesúela, Ekvadora að málum. Síðast í morgun bárust fréttir af því að Daniel Ortega, forseti Níkaragúa, hefði slitið stjórnmálatengsl við Kólumbíu vegna málsins.

Áður en sættir náðust á fundinum í kvöld kom til harkalegra deilna milli Alvaros Uribe, forseta Kólumbíu, og Rafaels Correa, forseta Ekvadors. Correa sakað Kólumbíumenn um árásagirni en Uribe svaraði því til að stjórnvöld í Ekvador tengdust uppreisnarmönnum FARC og kólumbísk stjórnvöld hefðu sannanir fyrir því.

Því hafnaði Correa og sagði hendur sínar ekki ataðar blóði. Viðurkenndi hann að hafa haft samband við FARC en aðeins í þeim tilgangi að reyna að knýja á um lausn gísla. Áður en hann féllst á að taka í hönd Uribe sagði Correa að bræðraríki ættu aldrei að ráðast aftur hvert á annað.

Á fundinum var einnig greint frá því að kólumbísk yfirvöld hefðu ráðið annan háttsettan uppreisnarmann af dögum, Ivan Rios, í þetta sinn innan landamæra Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×