Erlent

Spænska stjórnin sakar ETA um manndráp

Félagar úr jafnaðarmannaflokknum faðmast á sjúkrahúsinu í Mondragon eftir morðið á Carrasco í dag.
Félagar úr jafnaðarmannaflokknum faðmast á sjúkrahúsinu í Mondragon eftir morðið á Carrasco í dag. MYND/AFP

Alfredo Perez Rubalcaba innanríkisráðherra Spánar sakaði í dag aðskilnaðarsinna Baska, ETA, fyrir morð á fyrrverandi bæjarfulltrúa í Baskahéraði í dag. Helstu stjórnmálaflokkar Spánar frestuðu lokakosningafundum sínum í dag vegna morðsins, en kosið verður á sunnudag.

Isaias Carrasco var skotinn til bana fyrir framan konu sína og unga dóttur í bænum Mondragon rétt eftir hádegi í dag. Carrasco var þriggja barna faðir og var í jafnaðarmannaflokknum sem nú fer með völd í landinu.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð sinni á morðinu en bæjarfulltrúar hafa oft verið skotmörk aðskilnaðarsinna ETA.

Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra batt enda á friðarviðræður við ETA í desember 2006. Samkvæmt skoðanakönnunum er hann sigurstranglegastur ásamt íhaldssama þjóðarflokknum. Hann náði óvæntu kjöri sem forsætisráðherra í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Madrid árið 2004 þegar 191 lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×