Erlent

Vonast til að opna landamærastöðvar á Kýpur

Demetris Christofias forseti Kýpurgrikkja (til vinstri) fundar með Michael Moller erindreka Sameinuðu þjóðanna (annar frá hægri) auk annarra embættismanna í forsetahöllinni í Nicosia á mánudag.
Demetris Christofias forseti Kýpurgrikkja (til vinstri) fundar með Michael Moller erindreka Sameinuðu þjóðanna (annar frá hægri) auk annarra embættismanna í forsetahöllinni í Nicosia á mánudag. MYND/AFP

Demetris Christofias nýr forseti á Kýpur segist vonast til að hitta leiðtoga tyrkneska hluta Kýpur seinna í mánuðinum til að endurvekja friðarviðræður. Christofias hefur þegar sagt að hann hafi óskað eftir að Sameinuðu þjóðirnar skipuleggi fund með Mehmet Ali Talat. Leiðtogarnir tveir hafa sagst vera bjartsýnir á að þeir gætu náð árangri í átt að sameiningu eyjarinnar. 

Christofias mun vonast til að opna landamærastöðvar í höfuðborginni Nicosia sem skipta eynni í tvennt á milli gríska og tyrkneska hlutans.

Áratugum saman hafa tilraunir diplómata til að sameina hlutana mistekist. Eyjan hefur verið klofin frá því að Tyrkir sendu herlið inn í norðurhluta eyjarinnar eftir að Kýpurgrikkir gerðu uppreisn og vildu sameinast Grikklandi.

Kýpurgrikkir höfnuðu friðaráætlun SÞ árið 2004 á en Kýpurtyrkir samþykktu hana. Aðskilnaðurinn á eynni hefur staðið Tyrkjum fyrir þrifum hjá Evrópousambandinu þar sem þeir hafa reynt að fá aðild árum saman.

Tyrkneski hlutinn á Norður-Kýpur hefur einungis verið viðurkenndur af Tyrkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×