Erlent

Eftirlitsnefnd Evrópuráðsins segir kosningar í Rússlandi gallaðar

Einu vestrænu kosningaeftirlitsmennirnir sem fylgdust með forsetakosningunum í Rússlandi í gær segja þær hafa verið gallaðar og að lýræðislegir möguleikar þeirra hafi ekki verið nýttir.

Eftirlitsmenn á vegum allsherjarþings Evrópuráðsins, PACE, voru í Rússlandi um helgina þar sem Dmítrí Medvedev, útvalinn arftaki Vladímírs Pútíns, sigraði með yfirburðum í forsetakosningunum. Hlaut hann alls rúmlega 70 prósent atkvæða og sagðist eftir það vonast eftir því að vinna vel með Pútín sem yrði forsætisráðherra.

Alls voru 22 eftirlitsmenn í Rússlandi á vegum PACE og í yfirlýsingu í dag segja þeir að kosningarnar hafi líkst þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu átta ár undir stjórn Pútíns. „Rússneska þjóðin kaus stöðugleika og samfellu sem fylgt hafa núverandi forseta og frambjóðandanum sem hann studdi," segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Eftirlitsmennirnir sögðu einnig að sömu gallar hefðu verið á kosningunum og í þingkosningum í Rússlandi í desember síðastliðnum. Þá vann flokkur Pútíns, Sameinað Rússland, yfirburðasigur. Frambjóðendur hafi ekki haft jafnan aðgana að fjölmiðlum og almenningi og þannig megi draga í efa hversu heiðarlegar kosningarnar voru.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem jafnan sinnir kosningaeftirliti í Evrópu, ákvað að senda ekki fulltrúa sína að fylgjast með kosningunum þar sem rússnesk stjórnvöld hugðust takmarka mjög eftirlit stofnunarinnar. Því fylgdust einungis 300 alþjóðlegir eftirlitsmenn með 96 þúsund kjörstöðum í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×