Erlent

Eiginkona skopmyndateiknarans rekin og ráðin

Morðhótanirnar gegn Kurt Westergaard sem teiknaði skopmyndina af Mohammed spámanni í Danmörku leiddu til þess að eiginkonu hans, Gitte, var vikið úr starfi sem fóstru við leikskóla í Árósum í gær en ráðin aftur í dag.

Er Gitte kom heim úr vinnunni í gærdag hringdi deildarstjóri leikskóladeildar borgarinnar í hana og tjáði henni að nærveru hennar væri ekki lengur óskað á leikskólanum tímabundið. Sagðist deildarstjórinn þurfa að gera þetta af öryggisástæðum.

Samkvæmt frásögn í Jyllands-Posten munu áhyggjufullir foreldra barna á leikskóla Gitte hafa þrýst mjög á að henni yrði sagt upp. Borgaryfirvöld tóku uppsögn Gitte til baka og hún er velkomin til starfa að nýju á leikskóla sinn í dag. Danska sjónvarpið hefur það eftir einum borgarráðsmanni að leyniþjónustan danska telji enga hættu á ferðum og því hafi uppsögnin verið afturkölluð.

Gitte sagðist sár og leið yfir þessu, hótanirnar hafi beinst gegn manni hennar og engin hætta væri á ferðum hvað hana sjálfa varðar. Gitte hefur unnið sem fóstra í Árósum undanfarin 25 ár. Gitte segir að hún skilji áhyggjur þeirra foreldra sem eru með börn á leikskóla hennar og að hún myndi aldrei vinna þar ef minnsta hætta væri á ferðum fyrir börnin eða samstarfsmenn hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×