Erlent

Íranskur hommi leitar til Hollendinga um hjálp

Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti segir samkynhneigð ekki til í Íran.
Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti segir samkynhneigð ekki til í Íran.

Nítján ára samkynhneigður íranskur námsmaður á yfir höfði sér dauðadóm í heimalandi sínu vegna kynhneigðar sinnar. Hann fékk ekki pólitískt hæli vegna þessa í Bretlandi og hefur nú leitað á náðir yfirvalda í Hollandi.

Medhi Kazemi kom til Bretlands árið 2004 til að leggja stund á nám við háskóla í Lundúnum. Nokkru síðar komst hann að því að kærasti hans heima í Íran hefði verið handtekinn, ákærður fyrir samkynhneigð og síðan hengdur. Við yfirheyrslur sagði hinn ákærði frá því að Kazemi væri kærasti hans.

Kazemi óttaðist því að hann sjálfur yrði ákærður og tekinn af lífi færi hann heim og sótti því um hæli í Bretlandi. Þeirri umsókn var synjað í fyrra. Þá flúði Kazemi til Hollands. Þar er hann í haldi á meðan dómari ákveður hvort hann verði sendur aftur til Bretlands eða honum leyft að sækja um hæli í Hollandi. Kazemi óttast að Bretar sendi hann stax heim til Írans verði honum vísað frá Hollandi.

Lögmaður Kazemis í Hollandi segir yfirvöld þar veita samkynhneigðum Írönum sérstaka vernd. Ekkert sé öruggt um slíkt í Bretlandi. Samkvæmt upplýsingum frá írönskum baráttusamtökum hafa yfirvöld í Íran tekið rúmlega fjögur þúsund samkynhneigða menn og konur af lífi frá byltingunni 1979. Í ræðu í Bandaríkjunum í fyrra sagði Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti, að í heimalandi hans væri ekkert samkynhneigt fólk að finna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×