Erlent

Bjó í 12 ár fyrir ofan kjallarafangelsið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lögregla á vettvangi í Amstetten þar sem stúlkunni var haldið fanginni.
Lögregla á vettvangi í Amstetten þar sem stúlkunni var haldið fanginni. MYND/AP

Alfred Dubanovsky, 42 ára starfsmaður á bensínstöð, bjó í tólf ár aðeins örfáa metra frá Elísabetu Fritz og þremur börnum hennar í Amstetten í Austurríki.

Í dag játaði faðir Elísabetar, Josef, að hafa fangelsað dóttur sína í 24 ár í kjallara hússins þar sem hann bjó og ól með henni sjö börn. Eitt þeirra dó, þrjú ól Josef upp með eiginkonu sinni og þrjú bjuggu með Elísabetu í 42 fermetra íbúð í kjallaranum en þau sáu dagsljós í fyrsta sinn nú um helgina.

„Ég næ þessu ekki. Ég bjó í tólf ár í húsinu og tók ekki eftir neinu," sagði Dubanovsky. Hann flutti úr íbúðinni í fyrra en Josef átti húsið og leigði út átta íbúðir í því. „Það er ekki hægt að ímynda sér hvað gekk á þarna niðri," bætti hann við. Dubanovsky segir að það sé þó ýmislegt sem hafi komið sér furðulega fyrir sjónir þá sem hann skilur betur nú. Josef hafi til að mynda harðbannað öllum íbúum hússins að koma nálægt kjallaranum.

„Kjallarinn er læstur með rafstýrðum lásum og sá sem kemur nálægt honum verður umsvifalaust borinn út," mun hann hafa sagt. Dubanovsky mun einnig hafa tekið eftir því að Josef burðaðist með matvörur í hjólbörum niður í kjallarann auk þess sem hann heyrði bank og önnur hljóð úr kjallaranum sem hann gat ekki útskýrt.

Annað hafi verið ósköp eðlilegt. „Ég og Josef spjölluðum oft um daginn og veginn," sagði Dubanovsky. „Þetta leit út fyrir að vera eðlileg fjölskylda og voru þau hjónin mjög góð við barnabörnin sín."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×