Erlent

Mengistu dæmdur til dauða

Mengistu Haile Mariam.
Mengistu Haile Mariam.

Hæstiréttur Eþíópíu hefur dæmt Mengistu Haile Mariam til dauða. Mengistu var leiðtogi marxista sem tóku völdin í landinu eftir að keisarinn Haile Selassie missti stjórn á ríkinu í kjölfar mikillar hungursneyðar. Valdatímabil hans einkenndist af miklum ofsóknum í garð þeirra sem hann skilgreindi sem andstæðinga sína.

Mengistu var fundinn sekur um þjóðarmorð í heimalandi sínu árið 2006 og dæmdur í lífstíðarfangelsi í kjölfar þess. 11 af æðstu embættismönnum í stjórn Mengistus fengu einnig lífstíðarfangelsi en 47 aðrir fyrrum embættismenn fengu fangelsisdóma allt að 25 árum.

Saksóknari áfrýjaði dómnum á þeirri forsendu að lífstíðarfangelsi væri ekki nægileg refsing fyrir Mengistu og því var hæstiréttur sammála í dag. Mengistu hefur verið undir verndarvæng Roberts Mugabe í Zimbabve síðustu ár og því er ólíklegt að hann verði látinn svara til saka á meðan Mugabe heldur um valdataumana þar.

Meðan Mengistu var forseti Eþíópíu, frá 1977 til 1991, voru pólitískir andstæðingar hans stráfelldir í herferð sem nefnd var "Rauða hættan". Þeir sem minnsti grunur lék á að væru á móti stjórninni áttu á hættu að finnast myrtir á götum borga og bæja.

Mengistu er einnig grunaður um að hafa látið ráða keisarann fyrrverandi Haile Selaisse af dögum en hann lést árið 1975 en hann hefur neitað því staðfastlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×