Erlent

Tíu þúsund munkar mótmæla í Myanmar

Nærri tíu þúsund Búddamunkar mótmæltu herstjórninni í Myanmar í dag. Þetta eru umfangsmestu mótmælaaðgerðir í landinu í tæp tuttugu ár.

Um eitt þúsund munkar í Yangon gengu framhjá vegatálum lögreglu inn í hverfið þar sem stjórnarandstöðuleiðtoginn Aung San Suu Kyi á heima.

Larry Jagan sérfræðingur um málefni Myanmar segir að mótmæli munkana virki hvetjandi á almenning, sem sé orðinn langþreyttur á herforingjastjórninni. Munkarnir njóta mikillar virðingar í Myanmar og herstjórnin hefur varast að láta til skarar skríða gegn þeim.

Hins vegar hafa um 150 óbreyttir borgarar verið handteknir, meðal annars fyrir að rétta munkum vatnskönnu.

Herforingjastjórn hefur verið í Burma síðan 1962. Hún leyfði hins vegar kosningar árið 1990 en þegar stjórnarandstaðan undir forystu Aung San Suu Kyi vann þær voru kosningarnar ógiltar og Suu Kyi sett í stofufangelsi, sem hún hefur verið í að mestu undanfarin sautján ár.

Hingað til hafa mótmælin farið friðsamlega fram en ef þau halda áfram að magnast er óvíst að herforingjastjórnin standi áfram aðgerðarlaus hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×