Erlent

15 konur og börn féllu í loftárás í Írak

MYND/AP

Loftárás Bandaríkjahers norður af Bagdad varð 15 konum og börnum að bana auk þess sem 19 uppreisnarmenn féllu í árásinni. Talsmenn hersins sögðu frá þessu í dag en árásinni var beint að mönnum sem grunaðir voru um að leiða starf Al Kaída í landinu.

„Við hörmum að almennir borgarar hafi láti lífið í aðgerðum sem miða að því að losa Írak undan ógn hryðjuverkamanna," sagði talsmaður hersins við fjölmiðla í dag. „Hryðjuverkamennirnir kusu að setja saklausar konur og börn í hættu með aðgerðum sínum og nærveru," bætti talsmaðurinn við.

Loftárásirnar voru gerðar á svæði sem er 120 kílómetra norður af Bagdad en samkvæmt upplýsingum frá leyniþjónustu hersins stóð til að leiðtogar Al Kaída myndi hittast á svæðinu. Herinn gerði árás á mennina og féllu fjórir uppreisnarmenn í árásinni. Þá hafi hópurinn forðað sér og bandarískir hermenn hafið eftirför. Þegar þeir hafi orðið fyrir skotárásum frá byggingu á svæðinu hafi verið tekin ákvörðun um að gera loftárás „í sjálfsvörn" eins og talsmaðurinn orðaði það. Herinn hefur nú áætlað að í þeirri árás hafi sex konur og níu börn fallið ásamt 15 ætluðum hryðjuverkamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×