Erlent

Doris Lessing hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels í ár

Breski rithöfundurinn Doris Lessing er handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels í ár. Frá þessu greindi sænska akademían í dag. Lessing, sem er 87 ára, er elsta manneskja sem hlotið hefur þennan heiður og ellefta konan.

Fram kemur í áliti akademíunnar að Lessing sé sagnakona hinnar kvenlegu reynslu sem með efahyggju, eldmóði og kröftugri lífssýn hafi tekið tvískipta menningu til rannsóknar. Meðal þekktra verka hennar eru Grasið syngur, Dagbók góðrar grannkonu og Gullna minnisbókin.

Doris Lessing er fædd árið 1919 í Persíu en fluttist svo með fjölskyldu sinni til Rhódesíu sem nú er Simbabve. Hún fluttist til Evrópu um þrítugt og gaf þá út sína fyrstu bók í Lundúnum, Grasið syngur. Bók hennar Gullna minnisbókin (Golden notebook) er talin til klassískra femínískra bókmennta en hún kom út árið 1962. Nýjasta bók hennar, The Cleft, kom út á þessu ári.

Lessing hlýtur eins og aðrir Nóbelsverðlaunahafar um 100 milljónir króna í verðlaunafé.

Lessing er annar breski rithöfundurinn sem hlýtur verðlaunin á þremur árum. Harold Pinter hlaut bókmenntaverðlaunin árið 2005. Á síðasta ári var það tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk sem hlaut heiðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×