Erlent

Móðir yfirgefnu stúlkunnar var myrt

Qian Xun Xue er nú í umsjá hjá fósturforeldrum.
Qian Xun Xue er nú í umsjá hjá fósturforeldrum. MYND/AFP

Lík móður stúlkunnar sem var yfirgefin á lestarstöð í Ástralíu á laugardag fannst í dag. Lögreglan hafði leitað konunnar frá því á laugardag og fann lík hennar í skotti bíls við heimili fjölskyldunnar á Nýja Sjálandi. Bíllinn er skráður á föður stúlkunnar sem er þriggja ára.

Öryggismyndavélar sýna að maður sem lögreglan telur vera pabba stúlkunnar hafi skilið hana eftir á lestarstöð í Melbourne. Qian Xun Xue fannst ein og ráðvillt á Southern Cross lestarstöðinni. Samkvæmt upplýsingum lögreglu fór faðirinn með flugi til Los Angeles stuttu síðar.

Lögreglan í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum, leita föðursins með hjálp alþjóðalögreglunnar Interpol. Hann heitir Xue Naiyin og er 54 ára útgefandi kínversks tímarits.

Lík konunnar verður krufið á morgun. Lögreglan sagði fyrr í vikunni að hún hefði áhyggjur af því að konan skyldi ekki hafa haft samband til að vitja um dóttur sína. Síðast sást til hennar fyrir 10 dögum .

Á síðastliðnu ári hafði lögreglan haft afskipti af heimilinu vegna heimilisofbeldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×