Erlent

Þingmenn í Ísrael telja Ísland hafa hlutverki að gegna

Utanríkisráðherra á fundi með Mahmoud Abbas forseta Palestínu í morgun.
Utanríkisráðherra á fundi með Mahmoud Abbas forseta Palestínu í morgun.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir að þingmenn í Knesset, ísraelska þinginu telji Ísland hafa hlutverki að gegna í friðarumleitunum milli Ísraels og Palestínu.

Ingibjörg sagði í samtali við Stöð 2 í dag, að hún hefði spurt þá sem hún hefði hitt í heimsókninni hvort þeir teldu að Ísland hefði hlutverki að gegna. "Það kom mér reyndar á óvart, þegar ég heyrði í þingmönnunum í gær sem sitja í Knesset, að þeir höfðu mjög ákveðnar hugmyndir um það að Ísland gæti gegnt hlutverki, rétt eins og Noregur og Sviss, sem standa líka utan við þessar helstu ríkjaheildir," sagði Ingibjörg.

Hún sagði að frá Palestínumönnum horfði málið þannig við, að allt alþjóðasamfélagið þyrfti að koma að þessum málum. Þeir þyrftu á verulegum stuðningi allra að halda og þá væru við Íslendingar ekki undanskildir. Ingibjörg hitti Abbas forseta Palestínu á stuttum fundi á Vesturbakkanum í morgun. Í fyrradag átti hún fund með Shimon Peres, nýkjörnum forseta Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×