Erlent

Rasmussen boðar til þingkosninga í Danmörku

Þingkosningar verða í Danmörku eftir þrjár vikur - um einu og hálfu ári á undan áætlun. Sitjandi stórn óskar umboðs til að hrinda í framkvæmd breytingum á velferðar- og skattkerfi landsins.

Þegar forsætisráðherra tilkynnti að hann ætlaði að ávarpa danska þingið í morgun var ljóst að það myndi draga til tíðinda.

Fogh Rasmussen, leiðtogi Venstre, varð forsætisráðherra í stjórn borgaraflokka í kosningum í nóvember 2001. Í janúar 2005 boðaði hann svo til kosninga með þriggja vikna fyrirvara og hélt velli. Það sama gerir hann nú með jafn löngum fyrir vara - einu og hálfu ári fyrr en hann þarf. Ástæðan nú er sú sama og 2005 - gott gengi í skoðanakönnunum.

Rasmussen segist vilja endurnýjað umboð til að hrinda í framkvæmd umbótum á velferðar- og skattkerfi landsins. Þannig skapist ró um það verkefni.

Efnahagsmál, skattalækkanir, innflytjendamál og nýr sáttmáli Evrópusambandsins, sem kemur í stað hugmynda um stjórnarskrá, verða án efa einhver stærstu kosningamálinu að þessu sinni.

Stjórnmálaskýrendur í Danmörku segja Fogh Rasmussen vilja fara í kosningar á eigin forsendum og því blási hann til þeirra svo snemma. Hann voni það einnig að flokkur sinn nái það miklu fylgi að ríkisstjórnin þurfi ekki lengur stuðning danska þjóðarflokksins. Einnig er talið að með endurnýjuðu umboði leiti Fogh Rasmussen frekari stuðnings hjá nýjum miðjuflokki - Nýja bandalaginu.

Helel Thorning-Schmidt, nýr leiðtogi danskra jafnaðarmanna, segist þess fullviss að hún og hennar flokkur hafi betur í baráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×