Erlent

Lottóvinningar gera marga að milljónamæringum á Spáni

Þórir Guðmundsson skrifar

Kampavínið flaut og gleðin réði ríkjum víðs vegar um Spán í dag þegar dregið var í tvö hundruð milljarða króna happdrætti. Jólin þykja ekki hafa gengið í garð fyrr en búið er að draga í spænska ríkislottóinu, El Gordo, eða þeim feita.

Götur á Spáni eru auðar því allir fylgjast með sjónvarpsútsendingunni þar sem börn syngja númer vinningsmiða og vinningsupphæðina. Númerið 6381 færði eigendum sínum um 25 milljónir króna.

Ein kona sem vann sagði fréttamönnum: "Nú er hægt að leysa öll vandamál varðandi húsnæðislán, sem eru komin á gjalddaga, og þar fram eftir götum. Fyrir verkakonu er þetta mikilvægt."

Spænska jólalottóið dreifir vinningunum á marga miða, en þeir eru þó eru ríflegir því hver miði er dýr. Jólalottóið var fyrst spilað árið 1812, fyrir tæpum tvö hundruð árum. Kampavínið flaut og gleðin skein úr hverju andliti þar sem menn söfnuðust saman til að fagna.

Í mörgum tilvikum sameinast fjölskyldur, vinir og starfsfélagar um miðakaupin og því er engin leið að vita hversu margir fögnuðu óvæntum glaðningi í dag - en þeir skipta þúsundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×