Erlent

Írakar taka við öryggisgæslu í Basra

Írakar tóku í morgun formlega við allri öryggisgæslu í borginni Basra og nálægum svæðum af breska hernum.

Breski herinn hefur haldið uppi öryggisgæslu í Basra og héruðunum í kring frá innrásinni í Írak árið 2003. Basra er næststærsta borg Íraks og þar er líka eina höfn landsins. Þá eru héruðin í kringum borgina ein þau olíuríkustu í Írak.

Bretar munu þó halda eftir liðsafla í og við borgina til að aðstoða Írakskar öryggisveitir og þá munu þeir einnig þjálfa nýjar sveitir. Alls eru nú um 4.500 breskir hermenn í Írak en um tvö þúsund verða kallaðir heim næsta vor.

Flokkar Shjíta múslima með stuðningi vopnaðra hópa almennings hafa ráðið lögum og lofum í suðurhluta Íraks frá því kosningarnar fóru fram árið 2005. Margir óttast að við brottför Breta hefjist blóðug valdabarátta milli þessara flokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×