Erlent

Hreinar nærbuxur mikilvæg lexía þingmanns

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Nigel Scullion í ræðupúlti á ástralska þinginu.
Nigel Scullion í ræðupúlti á ástralska þinginu. MYND/nigelscullion.com

Ástralskur þingmaður þakkar íslenskum hvalveiðimönnum einn dýrmætasta lærdóm lífs síns, að vera alltaf í hreinum nærbuxum og leyfa engum að handjárna sig við staur. Nigel Scullion er nýkjörinn varaformaður Þjóðarflokksins í Ástralíu sem vann sigur í þingkosningunum fyrir skemmstu.

Hann var handjárnaður við staur hálfnakinn eftir kvöldstund með íslenskum hvalveiðimönnum og kanadískum krabbaveiðimönnum á nektarstað í St. Pétursborg í Rússlandi fyrir 10 árum síðan. Í breska dagblaðinu Daily Telegraph kemur fram að Scullion hafi verið í forsvari fyrir nefnd á ráðstefnu í borginni árið 1998, þremur árum áður en hann varð þingmaður.

„Þetta var frábært kvöld. Ef þér verður einhverntíman boðið að drekka með íslenskum hvalveiðimönnum og kanadískum krabbaveiðimönnum, ekki hika við það," sagði hann í viðtali við blaðið.

Skemmtunin tók óvænt enda þegar slagsmál brutust út á klúbbnum milli rússneskra veiðimanna og annarra gesta. Þá flýði þingmaðurinn og segist hafa verið í öllum fötunum á þeim tímapunkti. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni hvernig það atvikaðist að hann var handjárnaður við staurinn og tapaði buxunum.

Scullion er giftur en segist hafa beðið eiginkonu sína afsökunar á athæfinu símleiðis næsta dag. Hann hafi þó skemmt sér mjög vel um kvöldið þrátt fyrir að týna buxunum.

„Þetta var fyrir tíu árum og ég var sjómaður," sagði hann og bætti við; „Allir eiga einhverjar litríkar sögur úr fortíðinni."

Atvikið var dregið fram í dagsljósið eftir að svipað mál tengt leiðtoga flokksins og forsætisráðherra, Kevin Rudd, var til umfjöllunar í aðdraganda kosninganna og varð óvænt til þess að auka vinsældir hans í kosningabaráttunni.

Scullion sagðist hissa á því að saga hans hefði ekki lekið í fjölmiðla fyrr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×