Erlent

Enn andar köldu milli Breta og Rússa

MYND/AP

Yfirvöld í Rússlandi hafa gefið breska menningarráðinu frest til janúarbyrjunar til að loka tveimur skrifstofum sínum utan Moskvborgar.

Að sögn rússneska utanríkisráðuneytisins hefur breska menningarráðið brotið skattalög í Rússlandi en því hafna forsvarsmenn menningaráðsins. Ráðið vinnur að því að breiða út breska menningu í heiminum og starfar á vegum breskra stjórnvalda.

Haft er eftir rússneskum embættismanni á vef Breska ríkisútvarpsins að aðgerðirnar séu svar við þeirri ákvörðun Breta að vísa fjórum rússneskum erindrekum úr landi í sumar. Var það gert í tengslum við deilu Breta og Rússa um framsal á Andrei Lugovoj, manni sem bresk stjórnvöld gruna um að hafa myrt fyrrverandi njósnarann Alexander Litvinenko í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×