Erlent

Myndavél gegn minnisleysi

MYND/Getty Images

Lítil stafræn myndavél gæti orðið lykillinn að því að hjálpa fólki sem á við minnisleysi að stríða. Sensecam vélin sem framleidd er af Microsoft tekur myndir af daglegum hlutum á 30 sekúndna fresti. Hægt er að skoða myndirnar seinna á miklum hraða til að hressa upp á minni einstaklinga.

Prófanir hafa sýnt að myndavélin hjálpar fólki að muna eftir atburðum og tilfinningum tengdum þeim. Sérfræðingar telja ennfremur að tæknin hjálpi fólki með almennt minnisleysi auk þess að vera veruleg hjálp fyrir þá sem þjást af alvarlegu minnisleysi, eins og Alzheimers sjúklingum.

Á fréttavef BBC kemur fram að myndavélin sé nú notuð við rannsóknir í háskólum í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Vélin er lítil og passar í lófa fólks og er hægt að festa á föt. Hún getur geymt allt að 30 þúsund myndir, sem nægir fyrir notkun í tvær vikur.

Kona á sjötugsaldri sem þjáðist af minnisleysi tók þátt í prófum eftir að nota myndavélina í tvær vikur. Minni hennar jókst eftir því sem leið á tímabilið og í lok þess gat hún munað um 90 prósent atburðanna.

Nú er verið að prófa tækið bæði á heilbrigðu eldra fólki sem myndi vanalega ekki eiga í erfiðleikum með minni, og svo alzheimers sjúklingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×