Erlent

Medvedev vill Pútín sem forsætisráðherra Rússlands

Vladimir Putin núverandi forseti Rússlands gæti orðið næsti forsætisráðherra samkvæmt því sem líklegasti arftaki hans í forsetastóli Dmitry Medvedev segir. Putin lýsti í gær yfir stuðningi við Medvedev til forseta, en hann gegnir nú stöðu aðstoðarforsætisráðherra.

Putin lætur af embætti í mars á næsta ári en samkvæmt lögum má hann ekki sitja lengur en þau tvö kjörtímabil sem hann hefur gengt.

Medvedev var áður starfsmannastjóri Putins og stjórnarmaður í risagasfyrirtækinu Gazprom. Hann hefur sagt að fjárhagslegur ávinningur verði að fara í félagslega uppbyggingu.

“Ég biðla til Putins forseta og óska eftir því að hann samþykki í meginatriðum að fara fyrir ríkisstjórninni eftir forsetakosningarnar,” sagði Medvedev í rússneska sjónvarpinu í dag. “Það er eitt að kjósa forseta, en ekki minna mikilvægt að viðhalda skilvirkni liðsins,” sagði hann einnig.

Medvedev er talinn afar sigurstranglegur í kosningunum, þökk sé vinsældum Putins og stuðningsyfirlýsingu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×