Erlent

Hátt í 50 látnir í tilræðum í Algeirsborg

Að minnsta kosti 47 menn létu lífið í sprengjutilræðum í Alsír í morgun.

Tvær bílsprengjur sprungu í Algeirsborg, höfuðborg Alsír, önnur nálægt byggingu hæstaréttar og hin fyrir utan lögreglustöð. Að minnsta kosti 47 létu lífið en lögregla telur að fjöldi látinna kunni að hækka og fara upp í sextíu.

Mikil ringulreið greip um sig eftir sprengingarnar. Tilræðið í morgun minnir á árin eftir 1992 þegar þúsundir manna létu lífið í átökum milli stjórnvalda og herskárra ismalista. Undanfarna mánuði voru íbúar Alsírs farnir að anda léttar, en sprengingarnar nú binda enda á kyrrðina.

Talið er líklegt að Al Kaída samtökin í norðanverðri Afríku hafi staðið fyrir voðaverkunum. Al Kaída samtökin hafa fyrir sið að láta finna fyrir sér á ellefta degi mánaðarins eins og til að minna á árásirnar á tvíturnana í Bandaríkjunum þann 11. september.

Síðasta stóra tilræðið í Alsír var fyrir átta mánuðum þegar 33 menn létu lífið í sprengingu þann 11. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×