Erlent

Tengsl milli tveggja skotárása rannsökuð

Lögreglan í tveimur borgum Colorado rannsakar nú hvort tengsl séu á milli tveggja skotárása síðdegis í gær. Árásirnar urðu með skömmu millibili í kirkju og trúboðsstöð. Þrír eru látnir og sex særðir eftir árásirnar.

Seinni árásin varð á bílastæði fyrir utan kirkju í Colorado Springs. Dökkklæddur maður með hríðskotariffill hóf skothríð þar um það bil sem kirkjugestir streymdu út úr kirkjunni eftir messu. Árásarmaðurinn náði að drepa einn og særa þrjá aðra áður en öryggisverði tókst að skjóta hann til bana.

Fyrr um daginn í rúmlega 100 km fjarlægð hafði maður komið inn á trúboðsstöð í úthverfi Denver og að því er virðist beðið um gistingu þar. Er því var hafnað tók maðurinn upp byssu, skaut tvo til bana og særði tvo aðra alvarlega. Honum tókst svo að flýja af vettvangi.

Lögregan í báðum borgununum vinnur saman að rannsókn málsins en neitar að gefa upp að sinni hvort málin séu tengd. Engin ástæða hefur fundist fyrir þessum skotárásum. Kirkjan í Colorado Springs er risastór og telur söfnuðurinn um 10.000 manns en kirkjan er talin miðstöð kristinnar trúar í Colorado-fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×