Erlent

Afríkuleiðtogar hafna viðskiptasamningi við ESB

Þórir Guðmundsson skrifar

Óvissa er um framtíð viðskipta milli Evrópu og Afríku eftir að flestir leiðtogar Afríkuríkja höfnuðu í dag tilboði Evrópusambandsins um nýjan viðskiptasamning.

Þetta var annar leiðtogafundur Afríku og Evrópu í sögunni - og vissulega má segja að sú staðreynd að hann var haldinn sýni vel sögulega tengingu heimsálfanna tveggja. Og þrátt fyrir nærveru Roberts Mugabe frá Zimbabwe - og fjarveru Gordons Brown frá Bretlandi - þá var gott hljóð í leiðtogunum sjötíu.

En Evrópusambandið hafði vonast til að ná samkomulagi um tollamál, samkomulagi sem var ætlað að taka við af núgildandi samningum sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur úrskurðað ólöglega. Það tókst ekki.

Leiðtogar Afríku bentu evrópskum kollegum sínum á að Kínverjar væru að fjárfesta í Afríku og þeir tvínónuðu ekki við hlutina heldur keyptu, seldu og fjárfestu eins og þeir ættu lífið að leysa. Gömlu nýlenduveldin yrðu að standa sig í samkeppninni.

Núgildandi viðskiptasamningar renna út um áramótin. Evrópusambandið ætlar ekki að hækka tolla þegar þeir ganga úr gildi - en leiðtogar þess bentu á í dag að náist ekki samningar fyrir þann tíma þá sé óvíst að sambandið komist upp með það - gagnvart alþjóðlegum viðskiptareglum - að vera með lægri tolla á vörur frá Afríku heldur en frá öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×