Erlent

Segja vísindakirkjuna stríða gegn stjórnarskrá

Vísindakirkjan hefur komið sér upp höfuðstöðvum í Berlín.
Vísindakirkjan hefur komið sér upp höfuðstöðvum í Berlín. MYND/AP

Wolfgang Schaeuble, innanríkisráðherra Þýskalands, og innanríkisráðherra 15 sambandslanda Þýskalands komust að þeirri niðurstöðu í dag að starfsemi hinnar svokölluðu vísindakirkju samræmdist ekki stjórnarskrá Þýskalands.

Með þessu opnast sá möguleiki fyrir þýsk stjórnvöld tað banna starfsemi kirkjunnar í landinu. Yfirvöld í Þýskalandi líta ekki á vísindakirkjuna sem sérstaka trú heldur söfnuð í líki kirkju sem hafi það eitt að markmið að mala gull. Þessu hafna forsvarsmenn vísindakirkjunnar.

Vísindakirkjan hefur hins vegar fengið að starfa í Þýskalandi og hefur gert það í Berlín frá upphafi árs. Fram kom í máli eins innanríkisráðherranna að njósnastofnanir myndu áfram afla upplýsinga um vísindakirkjuna svo stjórnvöld gætu tekið ákvörðun um það hvort henni yrði leyft að starfa áfram í landinu.

Vísindakirkjan hefur valdið töluverðum deilum í Þýskalandi. Skemmst er að minnast þess að þýska varnarmálaráðuneytið hugðist banna tökur á mynd um misheppnaða tilraun til að ráða Adolf Hitler af lífi á þeim grundvelli að Tom Cruise, einn af forvígismönnum vísindakirkjunnar, léki í myndinni. Síðar féll ráðuneytið frá því og heimilaði tökurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×