Erlent

Guinea-Bissau er að breytast í dópríki

Alþjóðasamfélagið hefur vaxandi áhyggjur af þróun mála í landinu Guinea-Bissau á Vesturströnd Afríku. Landið er orðið ein helsta umskipunarstöð á kókaíni fyrir fíkniefnamarkaðinn í Evrópu.

Samtökin Blaðamenn án landamæra segja að Guinea-Bissau sé orðið að dópríki og að umfjöllun um kókaínsmyglið í landinu sé bönnuð. Sannanir séu fyrir því að her landsins tengist kókaínsmyglinu og hagnist vel á því. Blaðamönnnum sem reyni að fjalla um málið sé hótað lífláti eða þeir hraktir úr landi. Sumir þeirra hafa neyðst til að fara í felur.

Kókaínbarónar frá Suður-Ameríku og evrópskir samstarfsmenn þeirra ráða því sem þeir vilja ráða í landinu. Þegar stjórnvöld er spurð afhverju þau handtaki ekki glæpamennina svara þau með því að segja að engin fangelsi séu til í landinu. Raunar er lögreglan ekki fær um mikið. Hún ræður aðeins yfir einni bifreið og engum handjárnum.

Nýlega voru tveir hermenn teknir í bíl þar sem 650 kg af kókaíni voru falin. Aðspurður svaraði yfirmaður þeirra að þeir tengdust ekkert kókaíninu heldur voru bara að fá sér far með bílnum.

Og vísbendingar eru um að stjórnvöld sjálf leggi blessun sína yfir smyglið. Nýlega hurfu 750 kg. af kókaíni sporlaust úr hirslum fjármálaráðuneytis landsins þar sem lögreglan hafði þau í geymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×