Erlent

SOS-barnaþorpinu í Mogadishu lokað

SOS-barnaþorpið í Mogadishu.
SOS-barnaþorpið í Mogadishu.

Eftir hörð átök eþíópískra og sómalskra hersveita við vopnaða uppreisnarmenn við SOS-barnaþorpið í Mogadishu í gær hefur verið ákveðið að loka þorpinu og koma börnunum fyrir á öruggari stað. 15 Íslendingar eru stuðningsaðilar barna í þorpinu. „Einn starfsmaður samtakanna lést og fjórir slösuðust alvarlega í átökunum sem eru þau alvarlegustu sem börn og starfsfólk barnaþorpsins hafa upplifað í þessum borgarhluta," segir í tilkynningu frá SOS-barnaþorpum.

„Sprengjur þær sem hersveitirnar notuðu í átökunum í gær voru stærri en í fyrri bardögum og ollu meiri eyðileggingu. Um leið og ljóst var að átök voru að brjótast út var farið með öll börnin í sérútbúið byrgi á lóðinni," segir einnig. „Nokkrir starfsmenn yfirgáfu síðan byrgið til að sinna erindum sem þeir töldu áríðandi. Ein SOS-móðir var stödd í húsi sínu þegar sprengja lenti á því og hún slasaðist alvarlega. Hún gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsi Rauða krossins í gær og er nú á gjörgæslu."

Þá segir að annar starfsmaður, svokölluð SOS-frænka, sem er aðstoðarkona SOS-mæðranna, sem stödd var fyrir utan byrgið hafi lent í sprengingu og látist auk þess sem þrír aðrir starfsmenn hafi slasast í átökunum.

Ahmed Ibrahim þorpsstjóri segir ástandið mjög slæmt í borginni og hann geti ekki áætlað hvenær börnin geti snúið aftur til þorpsins. Hann er nú að reyna að koma starfsfólki sínu fyrir á öruggum stöðum. SOS-skólinn á staðnum er nú lokaður vegna fría og allir 500 nemendurnir því heima. Starfsemi SOS-sjúkrahússins hefur ekki raskast.

„Um leið og við hörmum dauða eins starfsmanns okkar og er umhugað um heilsu þeirra sem slösuðust alvarlega veltum við fyrir okkur hvort SOS geti haldið áfram að starfa í Mogadishu," segir Ahmed Ibrahim þorpsstjóri. „Samtökin hafa starfað í borginni í yfir 20 ár. Það væri mikið áfall fyrir íbúa borgarinnar ef SOS þyrfti að leggja niður allt starf sitt í borginni og hætta því mannúðarstarfi sem unnið hefur verið öll þessi ár, einkum nú þegar ástandið er eins og það er og milljón flóttamenn þurfa á aðstoð að halda,"segir hann.

„Slíkt væri stórt skref afturábak fyrir börnin í borginni og þær þúsundir sem eru háðar SOS-sjúkrahúsinu. Við skorum á deiluaðila að leggja niður vopn og tryggja öryggi borgaranna og þeirra sem vinna að mannúðarmálum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×