Erlent

Lánahneyksli í Bandaríkjunum skekur Noreg

Þórir Guðmundsson skrifar

Nokkur norsk sveitarfélög sjá fram á stórtap eftir að hafa fjárfest í skuldabréfum sem tengjast húsnæðislánum í Bandaríkjunum. Terra verðbréf fékk fjögur sveitarfjélög í Norður Noregi til að festa fé sitt í því sem virtist vera aðlaðandi verðbréfapakki frá Citigroup. Þeir settu sem svarar rúmlega fjörtíu milljörðum íslenskra króna í viðskiptin.

Þetta var í júní. En þegar bankar í Bandaríkjunum fóru að lenda í vandræðum með lán til húskaupenda fóru að renna tvær grímur á norsku sveitarstjórnarmennina.

Fjármálaeftirlitið afturkallaði verðbréfaréttindi Terra, sem lýsti yfir gjaldþroti og nú er ljóst að sveitarélögin tapa öllu.

Bjørn Skogstad Aamo, norska fjármálaeftirlitinu, segir að hér sé um alvarlegasta mál sem eftirlitið hafi komið að í tengslum við verðbréf í mörg ár. Augljóslega hafi kaupendur bréfanna fengið afar villandi upplýsingar.

78 norskir sparisjóðir eiga Terra. Þeir höfnuðu kröfum um að koma norsku sveitarfélögunum til hjálpar. Citigroup menn segja að þeim þyki fyrir þessu, en að svona séu markaðirnir og norsku sveitarstjórnarmennirnir hefðu átt að gera sér grein fyrir áhættunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×