Erlent

Íbúar Kosovo varaðir við sjálfstæði

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Utanríkisráðherrar nokkurra Evrópusambandsríkja hafa hvatt Kosovo-Albana til að lýsa ekki yfir einhliða sjálfstæði eftir kosningar á laugardaginn. Sjálfstæði án stuðnings alþjóðasamfélagsins gæti einangrað héraðið að mati þeirra.

Talið er að stjórnmálaflokkur undir forystu Hashim Thaci, fyrrum albansks uppreisnarmanns, muni vinna kosninguna, sem var sniðgengin af serbneska minnihlutanum. Flokkur hans miðar að því að lýsa yfir sjálfstæði frá Serbíu eftir 10. desember. Það er sú dagsetning sem Sameinuðu þjóðirnar settu sem lokafrest samkomulags á milli Albana og Serba.

Kosovo var áður hluti af Serbíu en hefur verið stjórnað af Sameinuðu þjóðunum frá árinu 1999 þegar Nato hrakti serbneska herinn frá héraðinu. Albanar hafa lýst yfir vilja til sjálfstæðis og eru um 90 prósent íbúa í Kosovo þar sem um tvær milljónir manns búa.

Serbar eru hins vegar alfarið á móti áformunum og hlýddu kalli ríkisstjórnar Serbíu um að sniðganga kosningarnar.

Evrópusambandið sem telur 27 þjóðir er klofið í afstöðu sinni til sjálfstæðis Kosovo, en Bandaríkjamenn styðja áformin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×