Erlent

Blackwater brotlegir í Bagdad

Alríkislögreglan í Bandaríkjunum hefur komist að því að liðsmenn öryggisfyrirtækisins Blackwater hafi drepið að minnsta kosti 14 saklausa borgara í Írak sextánda september.

Rannsókn Alríkislögreglunnar, FBI, stendur enn yfir en fyrstu niðurstöður benda til þess að starfsmenn Blackwater hafi gerst sekir um að fara langt út fyrir leyfileg mörk þegar þeir hófu skothríð í Bagdad þar sem 17 manns létu lífið. Rannsóknin hefur þegar leitt í ljós að 14 þeirra sem létust hafi verið saklausir borgarar. Saksóknarar eiga enn eftir að taka ákvörðun um kvort mennirnir verði sóttir til saka og hafa sumir bent á að óvíst sé hvort af því geti orðið, sökum lagaflækja.

Komið hefur í ljós að fimm Blackwater liðar hófu skothríð á fjölfarinni götu í Bagdad. Sérstaklega hafa sjónir manna beinst að einum manni sem ekki hefur verið nafngreindur, en hann er sagður bera ábyrgð á mörgum dauðsfallanna. Ekkert bendir til þess að mennirnir hafi lent í umsátri eins og fyrirtækið sagði fyrst eftir atvikið en forsvarsmenn þess sögðu starfsmenn sína hafa skotið á fólkið í sjálfsvörn.

Starfsmenn Blackwater vernda meðal bandaríska diplómata og starfsmenn utanríkisráðuneytisins á ferðum þeirra í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×