Erlent

Nemendur Jokela-skólans snúa aftur í tíma

Nemendur í Jokela-menntaskólanum í bænum Tuusula í Finnlandi sneru aftur í tíma í dag, fimm dögum eftir að nemandi í skólanum, Pekka-Eric Auvinen, gekk þar berskerksgang og myrti átta og særði tólf manns. Hann svipti sig svo lífi eftir árásina.

Kennsla fór þó ekki fram í skólanum í dag því skólabyggingin er enn lokuð þar sem lögregla hefur ekki lokið vettvangsrannsókn. Huvudstadsbladet finnska greinir frá því að lögregla verði líklega nokkrar vikur að ljúka henni enda skólabyggingin stór. Alls hefur lögreglan rætt við á fjórða hundrað manns vegna málsins og á enn eftir að ræða við nokkurn fjölda.

Með þessum yfirheyrslum hefur lögregla fengið skýrari sýn á atburðarásina daginn örlagaríka. Þannig segja vitni að Auvinen hafi hvatt til byltingar og til þess að eignum skólans yrði rústað um leið og hann skaut af byssu sinni. Þykir þetta benda til þess að hann hafi ekki litið á alla nemendur skólans sem andstæðinga sína. Þá mun hann hafa beint byssunni að nokkrum manneksjum án þess að skjóta.

Þá rannsakar lögreglan myndband sem Auvinen setti á myndbandaveituna YouTube skömmu áður en hann lét til skarar skríða. Rannsókn lögreglu hefur þegar leitt í ljós að Auvinen skrifaði sjálfsmorðsbréf sem hann skildi eftir strax á mánudaginn í síðustu viku, en í því kemur fram að hann ætli að myrða sem flesta.  Réttarlæknisfræðileg rannsókn á líki Auvinens hefst svo á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×