Erlent

Lætur endurskoða skotvopnalög í Finnlandi

MYND/AFP

Skotvopnalög í Finnlandi verða endurskoðuð meðal annars til að koma í veg fyrir of mikla útbreiðslu skotvopna. Þetta kom fram í máli Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, á blaðamannafundi í Helsinki í dag. Hann segist vera undrandi á því hversu auðvelt það sé að fá skotvopnaleyfi.

Meðal þess sem Matti Vanhanen vill tryggja er að lengja það ferli sem tekur fólk að fá skotvopnaleyfi. Ennfremur vill hann láta skoða hvort banna eigi mönnum að geyma skammbyssur heima hjá sér. Þess í stað á að skylda eigendur að geyma skotvopnin á æfingasvæðum. Þá vill Vanhanen hækka lágmarksaldur þeirra sem geta fengið skotvopnaleyfi úr 15 upp í 18 ára. Ungmenni á aldrinum 15 til 18 ára geta þó fengið að nota skotvopn en aðeins í fylgd með fullorðnum.

Pekka-Eric Auvinen, sem drap átta manns í skotárás í skóla í Finnlandi í síðustu viku fékk skotvopnaleyfi í síðasta mánuði eftir að hafa sótt stutt námskeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×