Erlent

Blaða- og fréttamenn mótmæla í Pakistan

MYND/AFP

Pakistanskir blaða- og fréttamenn söfnuðust saman í Islamabad, höfuðborg landsins, í morgun til að mótmæla fjölmiðlabanni stjórnar Pervez Musharraf. Meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælunum var Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan.

Pervez Musharraf takmarkaði frelsi fjölmiðla þegar neyðarlögin voru sett í byrjun mánaðarins. Er fjölmiðlum meðal annars bannað að fjalla á neikvæðan hátt um stjórnvöld. Hafa þeir sem vilja fylgjast með ástandinu þurft að styðjast við erlenda fjölmiðla. Lögreglan hefur umkringt skrifstofu fjölmiðils í borginni Lahore en þar hafa blaðamenn komið sér fyrir í mótmælaskyni. Þá réðst lögreglan í Peshawar til inngöngu á ritstjórnarskrifstofu þar í borg til að brjóta niður mótmæli blaðamanna þar.

Lögreglan kom einnig í morgun í veg fyrir að Benazir Bhutto gæti heimsótt Iftikhar Mohammad Chaudhry sem rekinn var úr embætti hæstaréttardómar eftir að neyðarlögin voru sett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×