Erlent

Mesta flóðahættan í Englandi liðin hjá

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Flóðin á austurströnd Englands eru nú í rénun. Opnað hefur verið fyrir vegi sem flæddi yfir og íbúar eru að snúa aftur á heimili sín eftir að hafa yfirgefið þau. Fjöldi vega lokaðist um stund þegar flóðin náðu hámarki og vatn flæddi inn í fjölmargar byggingar og heimili.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra í London segir að engir Íslendingar séu skráðir hjá sendiráðinu sem íbúar á flóðasvæðinu. Fréttir þarlendra fjölmiðla séu þær að engar stórskemmdir hafi orðið á eignum og flóðin hafi ekki orðið að þeirri stærðargráðu sem menn óttuðust.

Hjördís Sturludóttir hefur dvalið í Suffolk síðustu þrjár vikur. Hún segir létta yfir fólki við að snúa heim. "Margir bjuggust við því versta og byrgðu sig upp af sandpokum og stígvélum í gær." Hjördís dvelur hjá fjölskyldu kærasta síns. Hún segir þau hafa fengið fyrirmæli um að ef þau yrðu um kyrrt í húsinu og flóðin yrðu slæm, ættu þau að halda sig á efri hæð hússins og taka öll rafmagnstæki úr sambandi. Víða hafi flætt inn í hús sérstaklega við á í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×