Erlent

Skaut hvert fórnarlamb mörgum sinnum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Nemendur hafa kveikt á kertum víða við Jokela menntaskólann í Tuusula þar sem morðin áttu sér stað.
Nemendur hafa kveikt á kertum víða við Jokela menntaskólann í Tuusula þar sem morðin áttu sér stað. MYND/AFP

Finnska lögreglan sagði á blaðamannafundi í dag að fjöldamorðinginn sem varð átta að bana í menntaskóla í Tuusula í gær hafi ætlað að drepa eins marga og hann gæti. Hann hafi skotið hvert fórnarlamb mörgum sinnum, í einu fórnarlambanna fundust 20 byssukúlur. Það sýni hversu brjálaður og ofbeldisfullur Pekka-Eric Auvinen hafi verið.

Bryndís Hólm fréttaritari Stöðvar 2 er á staðnum. Hún segir að pilturinn hafi farið með 500 byssukúlur í skólann en notað um 70 til að myrða skólastýruna, skólahjúkrunarfræðing og sex samnemendur.

Umtalað sé í bænum að það hafi verið skólastýrunni að þakka að pilturinn myrti ekki fleiri. Hún hafi gert viðvart og talað í hátalarakerfi þar sem hún sagði nemendum að flýja út um glugga eða læsa að sér. Hún sé hin raunverulega hetja þessara sorglegu atburða.

Bryndís hefur talað við fjölda nemenda við skólann sem verður lokaður fram á mánudag. Hún segir marga kvíða því að fara í skólann aftur; "Sú staðreynd að þarna hafi verið framin fjöldamorð er ofarlega í huga þeirra. Hugsunin um að fólk sem þeir þekki hafi verið drepið í ákveðnum skólastofum er yfirþyrmandi." Venjulegt líf muni því fara hægt af stað í Tuusula.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×