Erlent

Stjórnarandstæðingar handteknir í Pakistan

Guðjón Helgason skrifar
Búttó ætlar að berjast gegn ákvörðun Musharrafs.
Búttó ætlar að berjast gegn ákvörðun Musharrafs. Mynd/ AP

Fjölmargir stjórnarandstæðingar í Pakistan hafa verið handteknir í gær og í nótt eftir að Pervez Musharraf, forseti, tók sér alræðisvald um leið og neyðarlög voru sett í landinu í gær.

Musharraf sagði í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi að hann hafi fundið sig knúinn til að grípa í taumana og forða landinu frá glötun. Ofbeldisverk öfgamanna og afskipti dómsvaldsins af framkvæmdavaldinu hefðu lamað stjórn landsins.

Musharraf vann sigur í forsetakosningum á þingi í október og átti nýtt kjörtímabil að hefjast nú eftir helgina. Enn var þó á huldu hvort hann gæti tekið við þar sem hæstiréttur átti enn eftir að úrskurða um kjörgengi hans. Musharraf rak dómsforsetann í gær og skipaði nýjan í staðinn.

Benazír Búttó, fyrrverandi forsætisráðherra, sem sneri heim úr útlegð í síðasta mánuði, ætlar sér að berjast gegn ákvörðun forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×