Erlent

Bretar áhyggjufullir yfir ástandinu í Pakistan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
David Miliband, utanríkisráðherra Breta.
David Miliband, utanríkisráðherra Breta.

Stjórnvöld í Bretlandi segjast áhyggjufull yfir neyðarlögunum sem Musharraf forseti lýsti yfir í Pakistan í dag.

David Miliband, utanríkisráðherra Breta, sagði í yfirlýsingu að allir bandamenn Pakistana ættu að hafa áhyggjur af atburðum dagsins. „Við gerum okkur grein fyrir þeirri hættu sem friði og öryggi í landinu hefur verið stefnt í. En framtíð ríkisins veltur á því að lýðræði og leikreglur geti ríkt til að hægt sé að ná fram stöðugleika og þroska og unnt sé að vinna gegn hryðjuverkum. Atburðir dagsins færa ríkið fjarri þessum markmiðum," sagði í yfirlýsingunni.

Þá sagði enn fremur að mikilvægt væri að stjórnvöld virtu stjórnarskrána og myndu halda frjálsar og sanngjarnar kosningar á tilsettum tíma.

Fyrr í dag lýsti Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, yfir sömu áhyggjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×