Erlent

Áfall fyrir friðarumleitanir á Sri Lanka

Thamilselvan.
Thamilselvan. MYND/AFP

Fráfall Thamilselvan, leiðtoga stjórnmálaarms Tamil tígra á Sri Lanka, er áfall fyrir friðarumleitanir á svæðinu að sögn fyrrverandi talsmanns vopnahléseftirlitsins þar. Hann segir nánast öruggt að hefndaraðgerðir fylgi í kjölfarið.

„Ástandið á svæðinu mun örugglega versna," sagði Teitur Þorkelsson, fyrrverandi talsmaður vopnahléseftirlitsins á Sri Lanka, í samtali við Vísi. „Tamil tígrar hafa alltaf svarað þegar hátt settir menn innan þeirra raða falla í átökum. Tígrarnir munu væntanlega fella einhverja ráðherra ríkisstjórnarinnar í staðinn."

Thamilselvan lét lífið í loftárás stjórnarhersins á búðir Tamil tígra í morgun. Thamilselvan var einn af aðalsamningamönnum tígranna í friðarviðræðum þeirra við stjórnvöld og líta margir svo á að andlát hans sé áfall fyrir friðarumleitanir á svæðinu.

Teitur segir að það verði erfitt að fylla hans skarð. „Thamilselvan var tengiliður Tamil tígra við vopnahléseftirlitið og aðalsamningamaðurinn í viðræðum þeirra við stjórnvöld. Það er erfitt að sjá hvernig hægt verður að fylla hans skarð. Þetta eru ekki góð tíðindi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×