Erlent

McCann hjónin greiddu lán úr sjóði Madeleine

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Kate og Gerry á leið á fund með lögmönnum sínum í London í ágúst.
Kate og Gerry á leið á fund með lögmönnum sínum í London í ágúst. MYND/AFP
Gerry og Kate McCann borguðu tvær afborganir af íbúðarláni úr sjóðnum sem settur var á stofn til að efla leitina að Madeleine og styðja fjölskylduna. Þegar hjónin fengu hins vegar réttarstöðu grunaðra í Portúgal ákváðu þau að nota sjóðinn ekki fyrir persónulegar greiðslur.

Clarence Mitchell sagði Sky fréttastofunni að sjóðurinn hefði verið hugsaður til að styðja einnig við fjárhag fjölskyldunnar ef það væri nauðsynlegt. Þau hefðu aðeins notað hann fyrir þessar tvær afborganir fyrr á árinu. Ákvörðunin um að þau myndu ekki sækja peninga í sjóðinn hefði verið sameiginleg á milli stjórnenda sjóðsins og hjónanna. Þau samþykktu fúslega að með nýja réttarstöðu hefðu þau ekki lengur tilkall til sjóðsins fyrir fjárhag fjölskyldunnar.

Notkun fjármuna úr sjóðnum hefur sætt gagnrýni eftir að í ljós kom að þriðjungur peninganna hefur verið notaður til að greiða fyrir uppihald fjölskyldunnar, auglýsinga- og starfsmannakostnað. McCann hjónin segjast ekki nota sjóðinn til að greiða fyrir lögfræðiþjónustu.

Mitchell sagði Sky að honum væri sem dæmi ekki greitt úr sjóðnum, heldur af aðilum sem styðja fjölskylduna fjárhagslega.

Gerry mun snúa aftur til starfa fljótlega og hjálpa þannig til við að koma fjármálum fjölskyldunnar á réttan kjöl. Ólíklegt þykir að Kate hefji aftur störf sem heimilislæknir í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×