Erlent

Viðræður Íraka og Tyrkja fara út um þúfur

Þórir Guðmundsson skrifar

Viðræður milli stjórnvalda í Írak og Tyrklandi um leiðir til að koma í veg fyrir árásir kúrdískra skæruliða hafa farið út um þúfur. Tyrkneskar herflugvélar sjást nú á stöðugum eftirlitsferðum um landamærin við Írak.

Nú eru eitt hundrað þúsund tyrkneskir hermenn við landamæri Íraks, með fallbyssur, skriðdreka, þyrlur og önnur þungavopn. Herflugvélar sjást í stöðugum eftirlitsferðum við landamærin að elta uppi kúrdíska skæruliða. Fréttir hafa borist um að þær hafi varpað sprengjum á kúrdíska skæruliða Tyrklandsmegin landamæranna í gær.

Talið er að skæruliðar Verkamannaflokks kúrdistans - PKK - á þessum slóðum séu um fimm þúsund, þar af þrjú þúsund í Írak. Spenna magnast stöðugt. Í gærkvöldi fóru viðræður við stjórnvöld í Bagdad út um þúfur þegar tyrkneska stjórnin hafnaði tillögu Íraksstjórnar um að loka skrifstofu kúrdískra skæruliða.

Rúmlega þrjátíu þúsund manns hafa látið lífið í ofbeldi í Kúrdahéruðum Tyrklands síðan PKK skæruliðar hófu baráttu sína gegn stjórnvöldum í Tyrklandi árið 1984. Erdogan forsætisráðherra Tyrklands gagnrýndi vestræn ríki fyrir afstöðu sína gagnvart málinu. Hann sagði að Tyrkir væru að berjast við hryðjuverkamenn og væntu því aðstoðar vina sinna.

Erdogan fer til Bandaríkjanna þann fimmta nóvember til viðræðna við Bush forseta. Talið er að í þeirri ferð muni Bandaríkjamenn gera lokatilraun til að fá Tyrki ofan af því að ráðast inn á Kúrdasvæðin í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×