Erlent

Brennuvargur á ferð í Kalíforníu

MYND/Getty

Einn af stærri eldunum sem nú brenna í Suður Kalíforníu var kveiktur af ásettu ráði af manni sem greinilega þekkir til verka.

Þetta hefur fréttastofa CNN eftir foringja í slökkviliðinu sem berst við eldinn sem enn logar glatt. Hann segir að upptök Santiago eldsins í Orange sýslu sé hægt að rekja til tveggja staða við fáfarinn veg í sýslunni.

Eldurinn breiddi afar hratt úr sér sem er sagt benda til þess að brennuvargurinn hafi staðgóða þekkingu á vindáttum og öðrum þeim þáttum sem þurfa að koma til svo eldur breiðist hratt út. Staðfest hefur verið að um íkveikju hafi verið að ræða en sönnunargögn sem skjóta stoðum undir það fundust á íkveikjustaðnum.

Yfirvöld bjóða nú hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar um brennuvarginn 150 þúsund dollara í verðlaun. Ellefu hundruð slökkviliðsmenn berjast enn við Santiago eldinn sem hefur brennt 22 byggingar til ösku. Annar minni eldur í Riverside sýslu er einnig talinn vera af völdum brennuvargs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×