Erlent

Cheney aðvarar Írani

MYND/Getty

Dick Cheney sagði í ræðu sem hann hélt í Virgíníu í gær að Íranir stæðu í vegi fyrir því að friður kæmist á í Mið Austurlöndum og að heimurinn gæti ekki staðið hjá og horft upp á ríkið koma sér upp kjarnavopnum.

Ræða Cheneys er sögð vera liður í æ herskárri málflutningi Bandaríkjamanna gegn Írönum en fyrir nokkrum dögum síðan varaði Bush forseti við því að kjarnorkuvæðist Íranir gæti það leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar.

Cheney sagði að Íranir yrðu að gera sér grein fyrir því að haldi þeir óbreyttri stefnu í kjarnorkumálum þá sé alþjóðasamfélagið tilbúið til að bregðast við af mikilli hörku.

Hann sagði ljóst að Bandaríkin myndu aldrei leyfa Írönum að koma sér upp kjarnavopnum. Íranir hafa ávallt neitað því að þeir séu að þróa kjarnorkuvopn, kjarnorkuáætlun þeirra sé aðeins í friðsamlegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×