Erlent

Tyrkir kalla sendiherra frá Bandaríkjunum

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa kallað sendiherra sinn í Washington tímabundið heim til viðræðna. Það er gert vegna andstöðu við ákvörðun bandaríska þingsins um að skilgreina morð Tyrkja á Armönum árið 1915-1917 sem þjóðarmorð. Ályktun þess efnis var samþykkt af utanríkismálanefnd þingsins og fer þaðan til atkvæðagreiðslu hjá fulltrúaráðinu.

Bush stjórnin hafði hvatt þingið til að samþykkja ekki ályktunina þar sem fyrirséð var að hún myndi valda deilum. Þá óttaðist Bush stöðu Bandaríkjanna í mið-Austurlöndum og stuðning við stríðið gegn hryðjuverkum.

Abdullah Gul forseti Tyrklands fordæmdi ákvörðun þingsins en Robert Kocharian forseti Armeníu fagnaði ályktuninni.

Allt að ein og hálf milljón Armana var drepin í morðunum sem fræðimenn skilgreina sem fyrstu þjóðarmorð tuttugustu aldarinnar.

Tyrkir hafa neitað að morðin hafi jafnast á við þjóðarmorð og segja fjölda látinna ýktan. Þeir halda því einnig fram að fjöldi hinna látnu hafi drepist af völdum borgarastríðs og átaka í landinu.

Sendiherrann mun dvelja í Tyrklandi í viku eða 10 daga samkvæmt talsmanni tyrkneska utanríkisráðuneytisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×