Erlent

Önnur eldsprengjuárás í Albertslund

Önnur árás með Molotov-kokteilum, eða eldsprengjum, var gerð á lögreglustöðina í Albertslund, einu úthverfa Kaupmannahafnar í nótt. Að þessu sinni munaði mjóu að allt færi í bál og brand því ein eldsprengjan braut ytra byrði á rúðu að skrifstofu varðstjórans.

Eldsvoði hefði fylgt í kjölfarið ef sprengjan hefði náð alla leið inn. Eins og kunnugt er af fréttum var fimm eldsprengjum kastað á lögreglustöðina í fyrrinótt en þá fór betur en áhorfðist. Brian Normann varðstjóri í Albertslund segir að árásin í nótt hafi verið mun hættulegri en sú fyrri.

Lögreglan í Kaupmannahöfn stendur ráðþrota gagnvart þessum árásum og hefur enga hugmynd um hver standi að baki þeim. Í nótt var vitni að árásinni og greindi það frá því að þrír menn hefðu staðið að henni. Hinsvegar gat vitnið ekki gefið neina greinargóða lýsingu á þeim söku myrkur og að þeir voru fljótir að koma sér í burt eftir að hafa kastað eldsprengjunum.

Brian Normann telur helst að gerningsmennirnir séu einhverjir sem séu ekki par hrifnir af störfum lögreglunnar í Albertslund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×