Erlent

Ásakanir um greftrun Madeleine 'fáránlegar'

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
McCann hjónin á blaðamannafundi í Madrid í júní.
McCann hjónin á blaðamannafundi í Madrid í júní. MYND/AFP
Talsmaður McCann hjónanna vísar algjörlega á bug ásökunum portúgalskra fjölmiðla um að hjónin hafi grafið lík Madeleine í ferð sem þau fóru til Spánar þremur mánuðum eftir að stúlkan hvarf. Fréttir segja að portúgalska lögreglan sé nú að rannsaka tvo klukkutíma í ferðinni þar sem ekki er vitað um ferðir hjónanna og þau hefðu getað losað sig við lík stúlkunnar.

Hjónin fóru til Huelva á Spáni 3. ágúst. Rannsóknarlögreglumenn velta því fyrir sér af hverju ferðinni var frestað frá deginum áður og af hverju ferðin til Huelva tók lengri tíma en vanalegt er.

Clarence Mitchell talsmaður hjónanna var myrkur í máli þegar hann sagði Sky fréttastofunni að allar ásakanirnar í portúgölsku fjölmiðlunum væru algjörlega fáránlegar. McCann hjónin gætu ekki svarað hverri einustu ásökun sem borin væri á þau. Gerð hefði verið grein fyrir ferðum hjónanna þennan dag og fjölmiðlar hafi fylgst grannt með hjónunum. Það væri tími til kominn fyrir portúgalska fjölmiðla að láta af ásökununum á hendur hjónunum.

Kate og Gerry eyddu þremur klukkustundum í Huelva umræddan dag. Þau settu upp veggspjöld af Madeleine litlu og afhentu ferðamönnum myndir af henni. Ferðinni var frestað vegna þess að Kate leið ekki vel. Hjónin segja að ferðin til Huelva hafi tekið lengri tíma en vani er vegna þess að þau hafi stoppað á bensinstöð og dreift auglýsingaspjöldum af stelpunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×