Erlent

Dætur Pavarottis véfengja erfðaskrá

Pavarotti í Nice í júlí árið 2002.
Pavarotti í Nice í júlí árið 2002. MYND/AFP

Þrjár dætur Luciano Pavarottis af fyrra hjónabandi deila nú um erfðaskrá hans eftir að í ljós kom að hann ánafnaði eiginkonu sinni eignir í Bandaríkjunum sem metnar eru á tvo milljarða.

Pavarotti sem lést fyrr í mánuðinum gerði tvær erfðaskrár í sumar. Í þeirri fyrri fær Nicoletta Mantovani eiginkona hans 25 prósent eignanna, en fjórar dætur hans, þar af þrjár frá fyrra hjónabandi fá helminginn. Afgangnum áttu lögmenn að ánafna til ýmissa málefna.

Seinni erfðaskráin tekur auk þess til þriggja íbúða í New York, málverka og húsgagna. Þær eignir eru metnar á um tvo milljarða og renna alfarið til Mantovani.

Fabrizio Corsini lögmaður systranna þriggja sagði í gær að þær væru ekki ánægðar með seinni erfðaskránna og drægju hana í efa. Hann sagði vilja Pavarottis koma fram í fyrri erfðaskránni, og þess vegna eigi að skipta eignunum í Bandaríkjunum í samræmi við hana.

Áhugi á erfðarskránni hefur aukist frá dauða hans vegna fregna af deilu Mantovani og dætranna þriggja og að vandamál hafi verið í hjónabandinu.

Dæturnar þrjár skrifuðu bréf sem ein þeirra las upp í sjónvarpi í síðustu viku. Þar neita þær sögusögnum um „þras, draumkenndan auð, síðustu erfðaskrár og yfirlýsingar sem þær viti ekkert um."

Terri Robson umboðsmaður stórsöngvarans sagði í tölvupósti til AP fréttastofunnar að seinni erfðaskráin væri svar Pavarottis við orðrómi um brest í hjónabandi. Hún kallaði fréttirnar aðför að eiginkonu hans.

Tveir vinir Pavarottis fá um 40 milljónir hvor fyrir vináttu og trygga aðstoð. Þetta eru Edwin Tinoco aðstoðarmaður hans og Veronica Zeggio vinur hans.

Pavarotti lést eftir áralanga baráttu við krabbamein í briskyrtli. Hann var 71 árs að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×