Erlent

Microsoft tapaði fyrir Evrópudómstólnum

Þórir Guðmundsson skrifar

Evrópudómstóllinn staðfesti í dag ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gegn bandaríska tölvurisanum Microsoft. Ákvörðun dómsins getur haft verulega áhrif á Microsoft og Windows hugbúnaðinn.

Svo mikill áhugi var á niðurstöðu Evrópudómstólsins að sjónvarpað var beint úr dómssal í Lúxemborg í morgun.

Fyrir þremur árum úrskurðaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að Microsoft hefði beitt yfirburðastöðu sinni á markaði til að koma í veg fyrir að samkeppnisfyrirtæki kæmust að með sínar vörur. Þannig hefði Microsoft komið forritum fyrir í Windows kerfinu og með því í raun útilokað samkeppnisforrit.

Dæmi um slíkt er Windows Media Player, sem ber höfuð og herðar yfir aðra hljóð- og myndspilara. Evrópusambandið sektaði Microsoft um sem svarar 45 milljörðum íslenskra króna og krafðist þess að fyrirtækið gæfi viðskiptavinum kost á að kaupa Windows án Media Player.

Microsoft áfrýjaði til Evrópudómstólsins, sem í morgun staðfesti að nær öllu leiti upphaflega ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Talsmenn Microsoft sögðu fyrir fréttir að þeir væru enn að lesa dóminn og að þeir hefðu engar ákvarðanir tekið um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×