Erlent

Réttarhöld hafin yfir skákborðsmorðingjanum

Alexander Pichushkin
Alexander Pichushkin
Réttarhöld hófust í dag yfir rússneska fjöldamorðingjanum Alexander Pichushkin, sem er sakaður um að hafa myrt 49 manns. Flest fórnarlöm sín höfuðkúpubraut hann með hamri.

Það tók saksóknara tvær klukkustundir að lesa ákærurnar yfir Pichushkin, sem sat á meðan þögull í glerbúri í réttarsalnum. Saksóknararnir lýstu því hvernig hann myrti fórnarlömb sín, 46 karla og 3 konur, með því að berja þau í höfuðið, henda þeim fram af svölum eða drekkja þeim.

Pichushkin, sem er fyrrverandi starfsmaður í stórmarkaði, játaði upphaflega að hafa myrt 63, en það reyndist uppspuni. Fjölmiðlar í Rússlandi hafa kallað hann skákborðsmorðingjann, eftir að skákborð fannst á heimili hans, þar sem var búið að þekja 63 af 64 reitum borðsins með smámynt.

Búist er við að réttarhöldin yfir Pichushkin gætu tekið langan tíma, en hlýða þarf á vitnisburð að minnsta kosti 41 ættingja fórnarlamba hans, og 98 annarra vitna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×